Matsfyrirtækið Moody’s hefur staðfest lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar, Baa3, með neikvæðum horfum. Einkunnin endurspeglar samvarandi einkunn Ríkissjóðs Íslands. Þá hefur Moody’s hækkað grunneinkunn Landsvirkjunar úr B2 í B1 vegna bættrar fjárhagsstöðu Landsvirkjunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Í tilkynningu frá Moody’s segir meðal annars samkvæmt tilkynningu frá Landsvirkjun að ástæðan fyrir hækkun á grunneinkunn í B1 (Standalone einkunn eða Baseline Credit Assessment, BCA) er bætt fjárhagstaða Landsvirkjunar þar sem sjóðstreymi hafi styrkst og lausafjárstaða batnað. „Auk þess er tekið tillit til sterkrar fjárhagsstöðu og mikilvægi fyrirtækisins á íslenskum raforkumarkaði með stuðningi af sterku eignasafni til vinnslu á endurnýjanlegri orku,“ segir enn fremur.

Mikið verk óunnið

Þá er þetta haft eftir Herði Arnarsyni forstjóra Landsvirkjunar:

„Það að hækka grunneinkunn Landsvirkjunar eru mikilvæg skilaboð og sýna að fyrirtækið er á réttri leið. Landsvirkjun hefur unnið markvisst að því að draga úr skuldsetningu í kjölfar gangsetningar Kárahnjúkavirkjunar og bæta reksturinn. Þó er enn mikið verk óunnið en þrátt fyrir hækkun grunneinkunnar í B1 er hún enn 4 flokkum fyrir neðan lánshæfiseinkunnina, Baa3. Fyrirtækið er enn of skuldsett og verður áfram lögð áhersla á að lækka skuldir á næstu árum“.