Fram kemur í Dagens Industri í Svíþjóð í dag að samkvæmt greiningaraðilum á sænska hlutabréfamarkaðinum séu mikil kauptækifæri í hlutabréfum félaga í sænsku kauphöllinni. Samtals voru gefin út 155 verðmöt í október og er ráðleggingin "kaupa" í 100 þeirra, í 29 tilfellum eru ráðleggingarnar hlutlausar og aðeins í 26 tilfellum er að finna ráðleggingu um að "selja". Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum KB banka.

Enn eru það síma og samskipta fyrirtæki sem eru heitust á sænska markaðinum. Ericsson fær bestu útkomuna og er ráðlagt í 7 af 9 verðmötum að kaupa hluti í Ericsson. Eru helstu ástæður þessa talin nýleg kaup Ericsson á breska fjarskiptafélaginu Marconi. Aðeins er eitt verðmat sem gefur ráðlegginguna selja á bréfum Ericsson. Næst á eftir Ericsson kemur farsímaframleiðandinn Nokia og fær félagið 6 ráðleggingar um kaup á bréfum og einnig bara eina ráðleggingu um sölu. Einnig fá flest önnur fjarskiptafélög mjög jákvæða dóma.

Í Hálffimm fréttum KB banka kemur fram að nokkur fyrirtæki skiluðu betri uppgjörum en greiningaraðilar á sænska markaðinum höfðu búist við og á það sinn þátt í mjög jákvæðum viðbrögðum og verðmötum. Í þessum hópi má finna námufélagið Boliden sem skilaði framúrskarandi uppgjöri einum degi fyrr en upphaflega var ætlað. Lásaframleiðandinn ASSA Abloy rak forstjórann Bo Dankis samtímis birtingu uppgjörs, en uppgjörið var mjög gott. Þetta framkallaði mjög jákvæð viðbrögð á markaðinum ásamt þrem ráðleggingum um kaup á bréfum félagsins. Það félag sem kom hvað verst út úr verðmötum október mánaðar var munntóbaks framleiðandinn Swedish Match. Öll verðmöt ráðlögðu að það væri rétt að selja bréf í því félagi. Það lítur því ekki vel út fyrir tóbakið á sænska markaðinum að áliti greiningaraðila þar í landi.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.