Mosaic Fashions birtir afkomutölur sínar fyrir fyrri helming reikningsársins á hluthafafundi eftir lokun markaða á morgun. Gengið var frá kaupum á bresku tískuvörukeðjunni Rubicon í lok júlí síðastliðnum. Rubicon kemur því ekki inn í uppgjör félagsins á öðrum ársfjórðungi sem nær frá maí - júlí.

Greiningardeild Landsbankans segist gera ráð fyrir að bati verði á rekstri Mosaic frá því á fyrsta ársfjórðungi. "Rekstur Oasis, stærsta vörumerkis samstæðunnar fram til þessa, gekk ekki sem skyldi sem varð þess valdandi að framlegð dróst saman. Oasis fór þó inn í annan fjórðung með lága birgðastöðu og eigum við því von á bættri framlegð á fjórðungnum," segir í Vegvísi Landsbankans.

Eins og fram kom í afkomuspá Greiningardeildar Kaupþings banka, sem sett var fram í Þróun og horfum þann 11. júlí síðastliðinn, áætluðu þeir að velta félagsins á öðrum ársfjórðungi nemi 117,7 milljónum punda. Er það rúmlega 11% aukning frá 105,6 milljóna punda veltu félagsins á sama tíma í fyrra. Greiningardeild Kaupþings banka gerir ráð fyrir að EBITDA framlegð nemi 14,8% og að hagnaður fjórðungsins aukist um 257% á milli ára og verði 7,5 milljónir punda. "Þessar væntingar okkar um mikla aukningu hagnaðar byggir m.a. á lægri fjármagnskostnaði en töluverður kostnaður var á öðrum ársfjórðungi í fyrra vegna endurfjármögnunar," segir í Hálffimm fréttum bankans.