Um það bil 60 manns brutust inn í höfuðstöðvar fjárfestingabankans Bear Stearns í dag til að mótmæla björgunaraðgerð bandaríska seðlabankans. Mótmælendurnar kröfðust aðstoðar fyrir bandaríska húsnæðiseigendur, að því er Reuters segir frá. Sem kunnugt er mun seðlabankinn gangast í ábyrgð fyrir allt að því 29 milljarða dollara tap sem JPMorgan Chase kynni að verða fyrir vegna yfirtökunnar á starfsemi Bear Stearns.

Mótmælin voru skipulögð af bandarískum húseigendasamtökum (Neighbourhood Assistance Corpratoin of America). Dvöldu mótmælendurnir í anddyri Bear Stearns um hálftíma áður en lögregla vísaði þeim út.

Að sögn viðstaddra voru viðbrögð starfsmanna Bear Stearns blendin. Sumum þóttu þetta sæta mikilli furðu, en aðrir skemmtu sér yfir mótmælunum og tóku myndir á farsíma sína.

Reuters greinir jafnframt frá því að jakkafataklæddur vegfarandi hafi bent mótmælendum á það að húsnæðisskuldir bandarískra heimila næmu um 1000 milljörðum dollara, og því væri erfitt fyrir Seðlabankann að gera nokkuð í því.