Flýting vegaframkvæmda á ellefu stöðum á landinu á næstu þremur árum mun að mati verktaka og vinnuvélasala valda því að framkvæmdastig hjá jarðvinnuverktökum mun ekki lækka eins mikið og áður hafði verið gert ráð fyrir. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag þar sem rætt er við nokkra verktaka.

Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem Kristján Möller samgönguráðherra kynnti á þriðjudag á að flytja 6,5 milljarða króna umfram það sem þegar hafði verið ákveðið árin 2008, 2009 og 2010. Er það hugsað sem mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á aflamarki. Auk þess að þjóna langtímamarkmiðum um samgöngubætur virðist þetta einkum verða vatn á myllu jarðvinnuverktaka á landsbyggðinni.

Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar ehf. í Hafnarfirði, segist í samtali við Viðskiptablaðið fagna ákvörðun um flýtingu á samgönguframkvæmdum. Hins vegar segist hann hafa viljað sjá einhvern hluta af þeim fjármunum fara í uppbyggingu umferðamannvirkja í nágrenni höfuðborgarsvæðisins sem mjög brýnt sé orðið að koma í framkvæmd.


"Þetta leiðir líklega til þess að samdrátturinn verður minni en gert var ráð fyrir hjá þeim fyrirtækjum sem eru að sinna þessari tegund framkvæmda. Það eru verktakafyrirtæki sem eru mikið með stærri tæki," segir Sigþór. "Þetta mun að einhverju leyti halda dampinum uppi, en þó ekki að öllu leyti, enda hefur verið gríðarlega mikið að gera undanfarin ár. Það er heldur í sjálfu sér ekkert markmið að halda þessu brjálæði áfram ef svo má segja. Þetta mun þó verða til þess að vélarnar verða ekki seldar úr landi og útlendingarnir verða heldur ekki sendir heim."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.