Fyrstu þrjá mánuði ársins var MP Banki með mesta markaðshlutdeild í viðskiptum með skuldabréf í Kauphöll Íslands (NasdaqOMX) og var markaðshlutdeild MP Banka 24,4% á þessu tímabili að því er kemur fram í frétt félagsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni var Íslandsbanki í öðru sæti með 21,29% og Straumur í þriðja sæti með 17,35% markaðshlutdeild í viðskiptum með skuldabréf á fyrsta ársfjórðungi 2009.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að snemma árs 2008 markaði MP Banki þá stefnu að leggja aukna áherslu á viðskipti með skuldabréf. Árangur undanfarinna mánaða er afrakstur þeirrar stefnumörkunar og staðfesting á miklu trausti viðskiptavina til MP Banka. Framundan eru mikil tækifæri á skuldabréfamarkaði og því afar ánægjulegt fyrir starfsmenn MP Banka að fá slíkan meðbyr.