Starfsemi MP Fjárfestingarbanka í Eystrasaltslöndunum hefur farið ört vaxandi að því er kemur fram í tilkynningu og stefnt er að því að víkka út starfsemina svo þjónustan verði með svipuðu sniði og hjá bankanum hér á Íslandi.  Í dag veitir útibúið fjárfestum í Eystrasaltslöndunum og Norðurlöndunum fjármálaþjónusta með áherslu á fjárfestingar á fjármálamörkuðum í Austur-Evrópu.

Fyrsta skrefið í átt til enn frekari stækkunnar er flutningur útibúsins í Vilnius í nýja skrifstofubyggingu sem staðsett er í þeim hluta borgarinnar þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað og nýtt viðskiptahverfi er að verða til. Skrifstofurýmið er 315 fermetrar og starfsstöðvar fyrir 28 manns, allt á einni hæð. Með þessum flutningi batnar öll starfsaðstaða til muna og veitir möguleika til aukinna vaxta á komandi misserum. Skrifstofan var áður staðsett í gamla bænum í húsnæði sem var farið að þrengja mjög að vaxandi starfsemi bankans.

Nýr útibússtjóri í Vilníus

Útibú bankans í Vilníus hóf starfsemi í upphafi árs 2007 með fimm starfsmönnum en þeir eru nú orðnir þrettán. Nýlega var ráðinn nýr yfirmaður til að stýra útibúi bankans í Vilnius, Vygandas Jûras. Jûras hefur yfir fimmtán ára reynslu af starfi í fjármálageiranum í Litháen og á alþjóða vettvangi. Áður en hann gekk til liðs við MP Fjárfestingarbanka starfaði hann sem yfirmaður rannsókna og þróunar hjá TEO LT. Í fimm ár var hann meðeigandi og yfirmaður einkarekins hlutabréfasjóðs, BaltCap Management. Þar á undan hafði hann verið meðeigandi og síðan yfirmaður hjá alþjóðlegum fyrirtækjum í fjármálaráðgjöf; PricewaterhouseCoopers, Deloitte og KPMG/Barents Group og starfaði í Bandaríkjunum, Mið-Asíu og Úkraínu. Hann hefur mastersgráðu í stjórnun frá International School of Management í Litháen og B.A.-gráðu frá Macalester College í Bandaríkjunum.