Fjölmiðlar vestanhafs segjast hafa heimildir fyrir því að Hillary Clinton muni tilkynna framboð sitt til forseta Bandaríkjanna í hádeginu á morgun á samfélagsmiðlinum Twitter.

Orðrómar hafa verið um framboð Clinton í marga mánuði, en þetta er í annað sinn sem hún sækist eftir demókrata tilnefningunni, en hún tapaði eftirminnilega gegn Barack Obama árið 2008. Þar sem lítið er vitað um önnur framboð innan Demókrataflokksins hafa Repúblíkanar strax farið að beita sér gegn Clinton.

Margir frambjóðendur hafa valið að tilkynna um framboð sitt í byrjun apríl til þess að safna eins miklu fé áður en þeir þurfa að tilkynna um heildarfjáröflun í lok annars ársfjórðungs. Með fleiri framboðstilkynningum hefur áhugi vaxið á forsetakosningunum, en enn eru 586 dagar í kosningarnar í nóvember 2016.