Efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt til að vörugjöld á bílaleigubíla verði hækkuð frá og með áramótum. Í fréttatilkynningu frá Bílgreinasambandinu segir að þetta sé í fjórða árið í röð sem hreyft sé við vörugjöldum rétt fyrir áramót.

Jón Trausti Ólafsson, formaður sambandsins og framkvæmdastjóri Öskju, segir að breytingin sem nefndin leggi til sé verulega íþyngjandi og muni skaða bæði bílaumboð og bílaleigur á komandi ári.

„Lagt hefur verið til að undanþága um lækkun vörugjalda sé lækkuð úr að hámarki 1.000.000 kr. niður í 500.000 kr. um áramót," segir Jón Trausti í fréttatilkynningu. „Það er ljóst að verið er að refsa sérstaklega bílaleigum sem hafa verið að fjárfesta í nýrri og öruggari bifreiðum, og ýta undir rekstur bílaleiga sem fjárfesta í eldri bílum.  Hér erum við tala um að um auka gæði ferðamennsku en það gerum við ekki með því að hækka álögur."

„Það er fyrst núna sem bílaumboð og bílaleigur eru að ná einhverju jafnvægi í sínum rekstri. Flest þessara fyrirtækja hafa verið að berjast við neikvætt eigið fé og tap undanfarin ár. Nánast öll bílaumboð á Íslandi voru rekin með tapi árið 2013. Bílaumboð þurfa að panta bíla með löngum fyrirvara og gera bindandi samninga við sína birgja um verð og magn. Bílar sem afhenda á í vor, á tímabilinu mars-júní eru nú þegar komnir inn í samninga hjá þeim flestum og ekki hægt að bakka frá þeim nema með verulegum kostnaði," segir Jón Trausti.

„Við hjá Bílgreinasambandinu mótmælum þessu harðlega og finnst verulega vanta upp á vönduð vinnubrögð hjá Efnahags- og viðkiptanefnd í þessum efnum. Aðdragandinn er enginn og ef gera á svo veigamiklar breytingar á rekstrarumhverfi starfsgreina er eðlilegt að gefin sé að minnsta kosti 6 mánaða eða eins árs fyrirvari þannig að menn geti undirbúið sig. Ég geri ráð fyrir að bíleigur hafi nú þegar gefið út verðskrá sína fyrir næsta ár og hafi hafið bókanir fyrir sumarið 2015.  Þær verðskrár miðast að sjálfsögðu við þau gjöld sem liggja fyrir hverju sinni. Svona mikil breyting þýðir að hundruð milljóna króna kostnað fyrir bílaleigur og þá á bílaumboðin um leið sem þurfa að afpanta bifreiðar með tilheyrandi kostnaði. Þetta er ólíðandi framkoma gagnvart viðskiptalífinu í landinu,"

Þróun vörugjalda af bílaleigubílum

  • Ár        Milljónir króna
  • 2004     357,0
  • 2005     396,9
  • 2006     278,8
  • 2007     299,3
  • 2008     205,7
  • 2009     353,3
  • 2010     379,1
  • 2011     455,3
  • 2012     826,4
  • 2013     767,0*

Allar tölur eru á verðlagi ársins 2013.
*Vantar nóvember og desember.