Fjord Seafood, eitt af fjórum sjávarútvegsfyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöllinni í Osló, birti uppgjör sitt á föstudaginn eins og greint er frá í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun. Fjord Seafood er stórt í fiskeldi og vinnslu í Noregi auk þess sem félagið er með umfangsmikla framleiðslu á sjávarafurðum í Evrópu (Belgíu, Skotlandi, Hollandi, Frakklandi), Chile og Bandaríkjunum. Stærsti eigandi félagsins er norska útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Domstein ASA.

Rekstur Fjord Seafood var mjög erfiður á árunum 2002 og 2003 líkt og hjá mörgum öðrum norskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Fyrstu níu mánuði þessa árs hefur afkoman hins vegar batnað til muna. Tekjur Fjord samstæðunnar það sem af er ári voru 28,9 ma.kr (ISK) og lækkuðu um tæp 8% frá fyrra ári. Framlegðin (EBITDA) fyrstu níu mánuði ársins var 2,6 ma.kr m.v. 172 m.kr í fyrra. Tap félagsins á tímabilinu nam 137 m.kr á móti 5,9 milljarða tapi í fyrra.

"Svo virðist sem félagið hafi náð betri tökum á rekstrinum og t.a.m. voru mikil umskipti til hins betra í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir afkomubatann var uppgjörið lítið eitt undir væntingum spáaðila m.a. vegna lækkandi verðs á laxaafurðum á mörkuðum undanfarnar vikur. Þótt afkoma félagsins hafi verið erfið undangengin ár stendur það enn nokkuð traustum fótum og eiginfjárhlutfallið var 33% í lok þriðja ársfjórðungs," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.