Straumur-Burðarás birtir uppgjör sitt fyrir fyrstu 6 mánuði ársins um hádegisbilið á morgun, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Eins og fram kom í nýútkominni afkomuspá Greiningardeildar gerum við ráð fyrir að Straumur skili um 3,1 milljarða tapi eftir skatta á öðrum fjórðungi ársins. Skiptir þar mestu máli áætlað gengistap af stóru hlutabréfasafni félagsins í kjölfar þeirrar niðursveiflu sem varð á skandinavískum mörkuðum í maí og júní. Annað sem skiptir máli í þessu sambandi er þróun og stærð gjaldeyrisójöfnuðar bankans á tímabilinu, en ólíkt hinum íslensku bönkunum færir Straumur hagnað eða tap af stöðutöku í gjaldeyri í gengum rekstur (ekki beint yfir eigið fé)," segir greiningardeildin.

Spáin er með fyrirvara um spáskekkju því óvissan er nokkur sökum að ekki er vitað hver gjaldeyrisstaðan var í upphafi fjórðungsins né hver þróunin hefur orðið. ?Við gerum ráð fyrir að Straumur hafi dregið úr gjaldeyrisstöðu sinni fremur en hitt og áætlum 2,1 milljarða króna. í hreinan gjaldeyrismun á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 3,5 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi," segir greiningardeildin.

Hún býst einnig við að fjárfestingarbankinn færi niður viðskiptavild um allt að 15 milljarða og furðar sig á að fjárfestingarbankinn, sem starfar að miklu leyti sem fjárfestingarsjóður, sé með viðskiptavild í bókum sínum.

?Teljum við að það hljóti að mörgu leyti að vera freistandi fyrir nýja aðila sem halda um stjórnartaumana í félaginu að byrja með hreint borð og afskrifa viðskiptavildina. Að auki má benda á að þeir sem nú fara með stjórnartaumana eru líklegir til að líta viðskiptavildina hornauga, en Landsbankinn afskrifaði sinn hluta viðskiptavildarinnar strax eftir uppskiptingu Burðaráss og nýr forstjóri félagsins, Friðrik Jóhannsson, þegar hann var forstjóri Burðaráss, afskrifaði alla viðskiptavild vegna kaupa félagsins á Kaldbaki á sínum tíma," segir greiningardeildin.

Afkomuspáin gerir ekki ráð fyrir afskrift á viðskiptavild en verði hún að veruleika má ætla að tap fjórðungsins nemi allt að 18 milljörðum króna.