Slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans segir dóma Hæstaréttar frá því gær í málum sem bankinn átti aðild að, hafa mun víðtækari áhrif en gengislánalögin sem samþykkt voru í desember í fyrra. Lögin taka til gengistryggðra lána í krónum.

Í tilkynningu frá Frjálsa fjárfestingarbankanum segir hins vegar að Hæstiréttur komist að því að öll gengistryggð lán séu ólögmæt, óháð því hver lántakinn er. Þar með talin eru því fyrirtæki.

Í tilkynningunni segir:

“FRÉTTATILKYNNING

15. febrúar 2011

Hæstiréttur Íslands kvað í gær upp dóma í tveimur málum varðandi lögmæti lána í erlendri mynt sem Frjálsi fjárfestingarbankinn var málsaðili að.

Niðurstaða beggja dómanna er sú að ef lánsfjárhæðin er tilgreind í íslenskri mynt og afborganir eru í íslenskum krónum þá teljast lánin vera í íslenskum krónum, jafnvel þó orðalag samninganna að öðru leyti beri annað með sér.

Varðandi úrlausn um vexti í málunum vísaði Hæstiréttur til fordæmis réttarins frá 16. september sl. Lagði rétturinn til grundvallar að reikna bæri lánin miðað við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands frá upphafsdegi.

Niðurstaða Hæstaréttar er mun víðtækari en lög sem sett voru á Alþingi í desember sl., en samkvæmt þeim var einungis skylt að endurreikna gengistryggð vaxtabótahæf íbúðalán til einstaklinga. Niðurstaða Hæstaréttar tekur hins vegar til allra „gengistryggðra“ lána bankans óháð því hver lántakandinn var eða tilgangur lántökunnar.

Frjálsi fjárfestingarbankinn hefur þegar hafist handa við endurútreikning þeirra lána sem dómarnir ná til, en búast má við að það taki nokkrar vikur að ljúka þeirri vinnu.

Þeir lántakendur sem eru með lán sem dómarnir ná til munu fá bréf sent frá bankanum þess efnis.

Frjálsi fjárfestingarbankinn„