Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar segir ekki vera tilefni til að stjórnendur sem heyra undir nokkur ráðuneyti verði kallaðir á fund nefndarinnar vegna umframeyðslu umfram fjárlagaheimildir. Um er að ræða undirstofnanir mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem funduðu með fulltrúum fjárlaganefndar í dag. „Það komu fram fullnægjandi skýringar frá ráðuneytunum," segir Vigdís eftir fundi dagsins.

Fundað með þremur ráðuneytum í dag

Heildarútgjöld ofangreindra ráðuneyta voru undir fjárlagaheimildum, en einstaka stofnanir fóru þó ríflega fram úr sínum heimildum á fyrri hluta ársins samkvæmt yfirliti um frávik gjalda ríkisstofnana. Þannig fór Veðurstofa Íslands, sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti til að mynda 146 milljónir fram úr áætlun. Skrifstofa ráðuneytisins fór einnig 46 milljónir fram úr áætlun.

Hvað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti varðar fór framkvæmdasjóður ferðamannastaða vel fram úr áætlun, eða sem nemur 587 milljónum. Þá fór framleiðnisjóður landbúnaðarins 55 milljónir fram úr heimildum.

Í mennta- og menningarmálaráðuneyti var viðhald á menningarstofnunum 179 milljónum dýrara en heimild stóð til, svo dæmi sé tekið.

Skýringin er að meginstefnu til sú að ekki var búið að færa ýmsar sértekjur undirstofnana ofangreindra ráðuneyta til bókar, auk þess sem tilfærslur gjalda innan árs skýrðu annan mun að hluta til. Hjá einstaka stofnunum gaf yfirlitið því ekki fyllilega rétta mynd af stöðunni samkvæmt Vigdísi.

Óvíst með önnur ráðuneyti

Vigdís segir að enn eigi eftir að funda með öðrum ráðuneytum, en það verði gert í þar næstu viku. Eins og fram hefur komið fóru Sjúkratryggingar 1.700 milljónir fram úr áætlun á fyrri helmingi ársins. Sjúkratryggingar eru á ábyrgð velferðarráðuneytis. Vegagerðin fór einnig rúmlega 2.000 milljónir fram úr heimildum sínum á sama tíma, en hún er undirstofnun innanríkisráðuneytis.

Ekki liggur fyrir hvort stjórnendur þeirra stofnana verði kallaðir á fund með fjárlaganefnd, en það kemur í ljós eftir fundi nefndarinnar með fulltrúum úr viðkomandi ráðuneytum í lok mánaðar.