Hagnaður Múrbúðarinnar nam 61,4 milljónum króna í fyrra, samanborið við 41 milljóna króna hagnað árið 2014. Rekstrarhagnaður jókst verulega milli ára, var 53,6 milljónir árið 2014, en var 75,5 milljónir í fyrra. Hagnaður fyrir skatta jókst sömuleiðis milli ára, fór úr 51,5 milljónum í 76,3 milljónir.

Eignir félagsins jukust um tæpar fimmtíu milljónir króna milli ára og námu um síðustu áramót 422,2 milljónum króna. Þar af voru fastafjármunir 17,2 milljónir og birgðir 285,9 milljónir króna. Skuldir félagsins námu um síðustu áramót 60,1 milljón króna og höfðu lækkað um rúmar fjórtán milljónir á milli ára. Allar skuldirnar eru skammtímaskuldir. Þetta þýðir að eigið fé félagsins nam um áramótin 362 milljónum króna og eiginfjárhlutfall 85,7%.

Stjórn félagsins mun koma með tillögu um úthlutun arðs á hluthafafundi.