Nýtt útgáfufélag fjölmiðlamógúlsins Rupert Murdoch hefur starfsemi skuldlaust og með um 2,6 milljarða Sterlingspunda í reiðufé, samkvæmt opinberum gögnum sem félagið hefur afhent yfirvöldu í Bretlandi.

Sem fyrr er hér um að ræða nýtt útgáfufélag, New News Corporation – en Murdoch hefur í raun aðskilið útgáfufélag dagblaða frá ljósvakamiðlum sínum. Þannig mun hið nýja félag vera útgáfufélag bandarísku blaðanna Wall Street Journal og New York Post sem og bresku blaðanna Times og Sun, ástralska blaðsins Australian auk þess að reka bókaútgáfufélagið HarperCollins. Eignir félagsins eru metnar á um 18,6 milljarða punda.

Önnur starfsemi sem áður var hluti af News Corp, svo sem bandaríska sjónvarpsstöðin Fox News og framleiðslufyrirtækið 20th Century Fox film studio, munu starfa undir eignarhaldsfélaginu Fox Group. Samkvæmt frétt BBC um málið mun aðskilnaður samstæðunnar vera frágenginn í júní nk. en Murdoch verður stjórnarformaður beggja félaga.

Murdoch
Murdoch
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Murdoch hefur sjálfur ekki farið í grafgötur með það að prentmiðlar hans, fyrir utan Wall Street Journal, hafa verið reknir með tapi á undanförnu misserum. Samkvæmt fyrrnefndri frétt BBC tapaði prentútgáfustarfsemi News Corp um 1,3 milljörðum punda á síðasta fjárhagsári. Eins og gefur að skilja drógust tekjur félagsins töluvert saman eftir að ákveðið var að hætta útgáfu breska dagblaðsins News of the World eftir að upp komst um stórfelldar símahleranir starfsmanna blaðsins sem ollu miklu fjaðrafoki í Bretlandi.