Mál málanna hjá ráðherrum evruríkjanna um helgina var að leysa gríðarleg fjárhagsvandræði Grikklands. Búið er að viðurkenna opinberlega að Grikkir geta ekki endurfjármagnað skuldir ríkisins á markaði og því þurfi að setja saman annan björgunarpakka til viðbótar við 110 milljarða evra neyðarlán sem þeir fengu fyrir ári síðan. Á föstudag barst óljós hótun um það að Grikkir ætluðu að henda evrunni og taka upp gamla gjaldmiðilinn sinn aftur, drökmuna.

Gríska hagkerfið hikstar ennþá og stjórnvöld eru engan veginn að ná þeim markmiðum sem sett voru þegar farið var í fyrsta björgunarleiðangurinn fyrir ári síðan. Óljóst er hvað muni felast í nýjum björgunarpakka en rætt hefur verið um endurfjármögnun skulda auk þess sem talað er um nauðsyn þess að kröfuhafar taki á sig skell og felli niður hluta af skuldunum.

Hér að neðan er hægt að skoða myndband af vef Financial Times þar sem greinendur Lex, þeir Luke Templeman og Vincent Boland, ræða stöðu Grikklands.

http://video.ft.com/v/936381701001/Greece-needs-revised-bail-out