Ferðakaupstefnan Mid-Atlantic hófst í gær en hún er haldin á vegum Icelandair til þess að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu í Bandaríkjunum og Evrópu.

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að þetta er stærsta ferðakaupstefna sem haldin er hér á landi í þeim tilgangi að viðhalda og auka ferðamannastraum til landsins og er árlegur lykilviðburður í ferðaþjónustunni.

Hér að ofan má sjá myndir af ráðstefnunni en hún stendur nú yfir dagana 5.-8. febrúar og fer fram í Laugardalshöllinni (Smellið á númerin til að skipta milli mynda.)

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir í samtali við Viðskiptablaðið að ráðstefnan gangi vel og þrátt fyrir núverandi ástand á mörkuðum sé mikill hugur í mönnum.

Hann segir ráðstefnuna góðan vettvang til að mynda viðskiptatengsl og ganga frá viðskiptum.

Fulltrúar á kaupstefnunni eru nú um 300 alls frá 12 löndum. Hér eru fulltrúar frá löndum sem hafa mikil ferðaþjónustutengsl við Ísland í Evrópu og Norður-Ameríku en einnig öðrum fjarlægari löndum.

Þátttakendur eru fulltrúar ferðaskrifstofa, hótela, bílaleiga, skemmtigarða og margvíslegra annarra ferðaþjónustufyrirtækja og að auki taka þátt ferðamálaráð Norðurlandanna, ferðamálaráð þeirra svæða og borga sem Icelandair flýgur til í Norður-Ameríku og jafnframt koma sendiráð þessara landa á Íslandi að kaupstefnunni.