Líftæknifyrirtækið Mýsköpun hefur lokið um 100 milljóna króna hlutafjáraukningu sem leidd er af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Aðrir stórir fjárfestar í þessari hlutafjáraukningu eru Upphaf - fjárfestingasjóður KEA, Jón Ingi Hinriksson ehf. í Mývatnssveit, Jarðböðin og Fjárfestingarfélag Þingeyinga.

Mýsköpun ehf., sem stofnað var af hópi heimamanna í Mývatnssveit hefur um nokkurra ára skeið unnið að ýmsum rannsóknum á þörungum t.d. með því að einangra, greina og ákvarða ræktunarskilyrði örþörunga úr Mývatni með framleiðslu og sölu í huga. Félagið stefnir að framleiðslu á tveimur mismunandi þörungum; Spirulina og Chlorella.

„Þar sem örþörungar hafa einstaklega hátt næringargildi eru þeir taldir geta skipt verulegu máli fyrir fæðuframboð í framtíðinni t.a.m. sem fæðubótarefni, innihaldsefni í mat, fóður (m.a. fyrir fiskeldi) og mikilvæg efni í lyfjaiðnaði,“ segir í tilkynningu.

„Þekking á notagildi er til staðar og þörungar eru víða ræktaðir. Sérstaða Mýsköpunar er ekki síst fólgin í staðsetningu og uppruna þörunganna sem þrífast m.a. vegna jarðhita á svæðinu.“

Frekari uppbygging gæti kostað allt að 3 milljarða

Hlutafjáraukningunni er ætlað að fjármagna uppbyggingu á framleiðslu þörunga í litlum skala „sem er nauðsynlegur undanfari stærri uppbyggingar á komandi árum“. Markmiðið sé að ná fyrst tökum á framleiðslunni í afmarkaðri einingu, tryggja gæðin og opna á söluleiðir.

Mýsköpun er nú til húsa í húsnæði Landsvirkjunar við Bjarnarflag en Landsvirkjun hefur á undanförnum árum stutt við bakið á Mýsköpun á ýmsan hátt. Á næstu mánuðum verða áætlanir um uppbyggingu á framleiðslu í fullri stærð útfærðar betur en sú uppbygging gæti kostað allt að þremur milljörðum króna.

„Þessi fjármögnun skapar okkur andrými til að koma upp smáskalaframleiðslu á Spírulinu og Chlorellu í Bjarnarflagi við Mývatn og útfæra áætlanir okkar um frekari uppbyggingu framleiðslunnar á komandi árum. Það er mikill áfangi og viðurkenning fyrir okkur að fá Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins til að leiða þessa fjármögnun og finna góðan meðbyr við verkefnið frá öflugum aðilum á Norðurlandi,“ segir Dagbjört Hafliðadóttir, framkvæmdastjóri Mýsköpunar.

„Við erum mjög ánægð með aðkomu sjóðsins að uppbyggingu Mýsköpunar. Fjárfestingin er í anda áherslna Nýsköpunarsjóðs um að koma snemma að sprotafyrirtækjum, fá einkafjárfesta með og brúa bil félaganna þar til verkefnin eru orðin nægilega þroskuð fyrir aðra fjárfestingarsjóði. Þá er afar ánægjulegt að styðja við verkefni sem allt í senn stuðlar að bættu fæðuframboði, styður við markmið í loftslagsmálum, skapar störf, er staðsett á Norðurlandi og leitt af þremur öflugum konum sem koma með verðmæta sérfræðiþekkingu á verkefninu,“ segir Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.