Samtök ferðaþjónustunnar afhentu á föstudaginn í fyrsta skipti nýsköpunarverðlaun samtakanna. Verðlaunin, 250 þúsund krónur og verðlaunaskjöld, fékk fyrirtækið Mývatn ehf. sem m.a. rekur Sel-Hótel Mývatn og Sel-Hótel Varmahlíð, ásamt því að standa fyrir hinum ýmsu viðburðum.

Undanfarin ár hafa Yngvi Ragnar Kristjánsson og fjölskylda hans, sem eiga og reka Mývatn ehf., beitt sér fyrir margvíslegum nýjungum á sviði ferðaþjónustu, einkum utan háannar og er í forsendum dómnefndar sérstaklega vísað til kúluskítshátíðar, snjóhúss, jólasveinsins í Dimmuborgum og íshestakeppni.

Kúluskítur er hringlaga þörungur sem vex eingöngu í tveimur vötnum í heiminum. Það eru Mývatn og Akanvatn í Japan. Við Akan hefur verið haldin kúluskítshátíð frá 1950 og er ein þekktasta hátíð Japana í dag. Á Mývatni var fyrsta kúluskítshátíðin haldin árið 2003 og tókst vel.

Þá fékk Hótel Aldan á Seyðisfirði sérstaka viðurkenningu fyrir að gefa gömlum húsum nýtt líf en þar hafa gömul hús, sem reist voru um aldamótin 1900, fengið nýtt líf sem hótel. Um er að ræða nýjung í menningartengdri ferðaþjónustu. Þegar hafa tvö hús verið tekin í notkun og áætlað er að taka fleiri hús í framtíðinni.

Formaður dómnefndar nýsköpunarsjóðs SAF er Jón Karl Ólafsson, formaður samtakanna.