Að sögn Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1, er félagið tilbúið með framkvæmdir upp á 500 milljónir króna sem ráðist verður í um leið og aðstæður á lána- og fjármálamarkaði batna.

Að sögn Hermanns hefur félagið margvíslegar framkvæmdir á prjónunum en það er með það eins og svo margt að menn halda að sér höndum vegna óvissunnar.

„Sú staðreynd að það er ekkert aðgengi að lánsfé á Íslandi gerir fyrirtækjum mjög erfitt fyrir með að skipuleggja framkvæmdir. Við myndum mjög gjarnan vilja fara út í eina til tvær framkvæmdir á næsta ári. Sú óvissa sem er um aðgang að lánsfé og verðið á því gerir það að verkum að menn halda að sér höndum.“

Að sögn Hermanns er um að ræða endurbyggingar á eldri útsölustöðum. Er ætlunin að rífa núverandi útsölustaði og byggja nýja. Hönnun er nánast lokið og verður ráðist í framkvæmdir um leið og aðstæður batna.