Útlit er fyrir að stjórnvöld í Frakklandi og á Spáni hafi ekki náð að draga jafn mikið úr hallarekstri ríkjanna og þau stefndu að. Þrátt fyrir það hefur staða ríkisfjármála landanna batnað nokkuð eins og á evrusvæðinu, samkvæmt gögnum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, birti í dag.

Í umfjöllun af vef Reuters-fréttastofunnar í dag kemur fram að halli á fjárlögum Spánar hafi í fyrra numið 7,1% sem hlutfall af landsframleiðslu. Ríkisstjórn Spánar stefndi að 6,98% hallaí fyrra. Þá nemur hallinn í Frakklandi 4,8% sem hlutfall af landsframleiðslu sem er 0,3 prósentustigum yfir markmiðum.

Samkvæmt gögnum Eurostat um skuldastöðu evruríkjanna nemur hallareksturinn 3,7% af landsframleiðslu á evrusvæðinu öllu. Til samanburðar var hallinn 4,2% og 6,5% árið 2010.