Slitastjórn Kaupþings hefur óskað eftir því að Seðlabankinn samþykki útgreiðslur úr þrotabúi bankans til kröfuhafa utan Íslands áður en unnt verður að leggja fram frumvarp um nauðasamninga. Svarið hefur hins vegar látið bíða eftir sér og telur slitastjórnin því ekki ljóst hvort hægt verði að hefja formlegt nauðasamningaferli fyrir áramótin eins og stefnt var að.

Í tilkynningu sem slitastjórnin hefur sent frá sér segir m.a. að hún hafi ásamt ráðgjöfum og í nánu samstarfi við kröfuhafaráðið unnið að undirbúningi að frumvarpi um nauðasamningana og miði þeirri vinnu vel áfram. Áður en þeirri vinnu lýkur og frumvarpið verður lagt fram verður samþykki Seðlabankans að liggja fyrir.

Slitastjórnin segir orðrétt:

„Í ljósi þess að óvissa ríkir um það hvenær erindi Kaupþings til Seðlabanka Íslands verður svarað er ekki mögulegt að birta nýja tímaáætlun vegna fyrirhugaðs nauðasamnings, en Kaupþing mun halda áfram undirbúningi að nauðasamningi, ásamt ráðgjöfum félagsins.“