Markaðurinn sem við störfum innan er búinn að vera nokkuð jafn síðustu ár og við virðumst hafa náð ákveðnum jafnvægispunkti í okkar rekstri," segir Kristófer Júlíus Leifsson, annar af stofnendum og framkvæmdastjórum Eldum rétt, en hann og Valur Hermannsson stofnuðu félagið árið 2013. Hagnaður félagsins árið 2018 nam 45 milljónum króna en árið 2017 nam hagnaðurinn 81 milljón. Þá nam velta félagsins 815 milljónum króna á síðasta ári og stóð hún nánast í stað frá fyrra ári.

„Við seldum fyrsta pakkann í janúar árið 2014 og því fögnuðum við fimm ára afmæli fyrirtækisins á þessu ári. Vöxturinn fram til ársins 2017 var alveg ótrúlegur og þá sérstaklega milli 2016 og 2017. Eftir það hefur reksturinn náð ákveðnu jafnvægi. Eftir þennan mikla vöxt er alls ekki óeðlilegt að það hafi fundist ákveðinn jafnvægispunktur. Árið 2018 kom einnig mun meiri samkeppni inn á markaðinn, nokkur ný fyrirtæki spruttu upp og sömuleiðis hófu stór matvælafyrirtæki að bjóða upp á svipaðar lausnir og við gerum."

Kristófer segir erfitt að segja til um það hvort þessi aukna samkeppni hafi haft áhrif á rekstur Eldum rétt.

„Matvælageirinn allur hefur aðeins átt undir högg að sækja undanfarin misseri og hann hefur ekki vaxið eins mikið síðasta árið og hann gerði árin þar á undan. Þessi þróun hefur meðal annars verið sýnileg í veitingahúsageiranum þar sem þó nokkur fjöldi veitingastaða hefur lagt niður starfsemi. Miklar launahækkanir síðustu ára hafa einnig bitnað nokkuð á fyrirtækjum í matvælageiranum sem reiða sig mikið á handafl - það er ekki mikil sjálfvirkni í gangi hjá t.d. veitingahúsum eða fyrirtækjum eins og okkar. Þetta bitnar á hagnaði okkar, en okkur líður engu að síður vel og reksturinn hefur heilt yfir gengið mjög vel."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .