Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar lækkaði um 1,91% í dag í tiltölulega litlum viðskiptum eða upp á tæpar 300 þúsund krónur. Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Marel um 1,54% í rúmlega 137 milljóna króna viðskiptum. Þetta var eina lækkunin á hlutabréfamarkaði. Fram kemur í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag að skuldakreppan í Evrópu og samdráttur í heimshagkerfinu hafi haft áhrif á íslensk fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri. Þar er Marel tekið sérstaklega fram.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 1,73%. Greint var frá því í dag að Framtakssjóðurinn hefði selt 7% hlut í félaginu. Á móti keypti LSR og fleiri lífeyrissjóðir bréf í félaginu.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,94% og endaði vísitalan í 968,88 stigum. Heildarveltan á hlutabréfamarkaði nam rétt rúmum þremur milljörðum króna. Hún skrifast að nær öllu leyti á veltuna með bréf Icelandair Group.