Farga þurfti tæpum þremur tonnum af hrefnukjöti þar sem tvær hrefnur voru veiddar á meðan verkfalli dýralækna stóð. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV .

Gunnar Bergmann Jónsson, hrefnuveiðimaður á skipinu Hrafnreyði, kom með þrjú dýr úr síðustu veiðiferð en þurfti að farga fyrstu tveimur hrefnunum.

„Við bjuggumst ekki við því að verkfallið stæði yfir í þann tíma sem það gerði. Við vorum með allt klárt og fórum út í flóa,“ sagði Gunnar Bergmann í samtali við RÚV.

„Við getum geymt þessi dýr í körunum okkar í tíu daga til tvær vikur. Við ákváðum að taka sénsinn en þurftum að farga tveimur fyrstu hrefnunum.“

Hrefnunum var fargað í fóðurstöð Suðurlands, en fram kom í fréttum RÚV að kjöt sem ekki hefur verið gæðavottað má ekki einu sinni nota í dýrafóður.