Vöruskipti við útlönd voru jákvæð um 12,6 milljarða króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Reynist það rétt nam verðmæti útfluttra vara 51,6 milljörðum króna en innfluttra 39 milljörðum króna.

Fátítt er að svo mikill afgangur sé af vöruskiptum en það hefur gerst annað slagið eftir hrun. Svipaðar tölur hafa sést um það bil tvisvar á ári og sást álíka afgangur síðast í febrúar á þessu ári.