Í janúar verður haldið uppboð í Flórída í Bandaríkjunum þar sem nokkrar sjaldgæfar myntir verða boðnar upp.

Einn undarlegasti hluturinn, sem til sölu verður á uppboðinu, er tíu senta mynt sem slegin var á nagla. Hefur naglinn verið settur í myntsláttuvélina og eru myntin og naglinn nú samhangandi.

Slíkir myntnaglar eru ekki óþekktir, en afar sjaldgæfir, og er þessi myntnagli metinn á um 10.000 dali, eða um 1,3 milljónir króna.

Myntin er ekki dagsett og er ekki vitað nákvæmlega hvenær hún var slegin, en ekki er útilokað að þetta hafi verið gert með vilja af starfsmanni myntsláttunnar.

Gallaðar myntir eru eftirsóttar meðal safnara og á sama uppboði verða boðnar upp penní myntir (eitt sent) sem slegnar voru úr vitlausum málmi. Þar á meðal er penní mynt frá 1943, sem slegin var úr bronsi, en á þeim tíma var hætt að slá penní úr þeim málmi til að spara brons í mikilvæga framleiðslu fyrir stríðið.