Íslensk fyrirtæki sem eiga að heita samkeppnisaðilar eru að stórum hluta í eigu sömu hluthafa. Til að mynda eru stærstu eigendur tveggja ráðandi símafyrirtækja landsins, Símans og Vodafone, að miklu leyti þeir sömu .

Talsverð tengsl má einnig finna á meðal tryggingafélaganna þriggja á markaði: Sjóvár, TM og VÍS. Tengslin eru sérstaklega sterk milli TM og VÍS, en tveir stærstu hluthafar Sjó­vár – SAT Eignarhaldsfélag hf. og SVN eignafélag ehf. – eiga einungis hlut í því eina fyrirtæki.

Stað­reyndin er samt sem áður sú að sjö stórir hluthafar eiga hlut í öllum þremur tryggingafélögunum og eiga þeir samtals 32,6% hlut í Sjóvá, 41,3% hlut í TM og 37,2% hlut í VÍS. Það kann að vera áhyggjuefni að samkeppnin í tryggingabransanum hefur minnkað umtalsvert frá því fyrir tveimur árum þegar sjö hluthafar áttu 28,1% í TM, 23,4% í VÍS og 20,2% í Sjóvá.

Ef Sjóvá er hins vegar tekið út fyrir sviga og einungis litið á TM og VÍS, þá er staðan sú að sömu hluthafarnir eiga alls 50,2% hlut í TM og 53,5% í VÍS. Um er að ræða 11 hluthafa, aðallega lífeyrissjóði en einnig félög á borð við Kviku banka, sjóði á vegum Stefnis, Íslandsbanka og safnreikning Virðingar.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti hluthafi bæði TM og VÍS, LSR er næststærsti hluthafi sömu félaga og Gildi sá þriðji stærsti. Þrír stærstu hluthafar tveggja af þremur markaðsráðandi tryggingafélögum eru þar af leiðandi þeir sömu, líkt og í tilfelli símafyrirtækjanna. Um sömu hluthafa er jafnframt að ræða og hjá símafyrirtækjunum. Af 20 stærstu hluthöfum Sjóvár eiga 43,7% þeirra einungis hlut í Sjóvá og félagið er því óháðara hinum tveimur, þar sem aðeins 23,9% af 20 stærstu hluthöfum TM eiga eingöngu hlut í TM og 26,1% af 20 stærstu hluthöfum VÍS eiga eingöngu hlut í VÍS.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .