Árni Þór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1979. Í kjölfarið flutti hann til Noregs og útskrifaðist með cand. mag.-próf í hagfræði og rússnesku frá Óslóarháskóla árið 1986. Næstu tvö árin stundaði hann framhaldsnám í slavneskum málvísindum í Moskvu og Stokkhólmi. Eftir að námstörninni lauk flutti Árni Þór aftur heim til Íslands og gerðist fréttamaður hjá fréttastofu RÚV. Hann staldraði þó stutt við og flutti sig yfir í samgönguráðuneytið árið 1989. Blaðamennskan togaði þó í Árna Þór og hann snéri sér aftur að henni á árunum 1991 til 1992. Á þeim stutta tíma náði hann að verða ritstjórnarfulltrúi og ritstjóri á Þjóðviljanum og að starfa á Helgarblaðinu. Þaðan fór hann til starfa hjá Kennarasambandi Íslands sem félags- og launamálafulltrúi og gegndi því starfi til ársins 1998.

Hellti sér í pólitík

Árni Þór var fyrst kosinn í borgarstjórn árið 1994 og sat sem borgarfulltrúi í þrettán ár. Á þeim tíma var hann formaður stjórnar Dagvistar barna, formaður skipulags- og byggingarnefndar, samgöngunefndar og umhverfisráðs Reykjavíkur auk þess sem hann gegndi embætti forseta borgarstjórnar á árunum 2002-2005.

Árni Þór var síðan kjörinn á þing fyrir Vinstri græna árið 2007 og sagði þá af sér sem borgarfulltrúi. Hann var meðal annars formaður þingflokksins um tíma á þessu ári á meðan Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var í fæðingarorlofi. Hann var endurkjörinn í það starf eftir að hún snéri aftur en sagði af sér þremur dögum síðar vegna mikilla deilna sem spruttu upp í kjölfarið.

Seldi stofnbréf

Árni Þór sat í stjórn SPRON á árunum 1998 til 2004. Þar sat hann vegna starfa sinna sem borgarfulltrúi. Hann fékk gefins stofnfé í sparisjóðnum, tæplega 1,5 milljónir að nafnvirði, á þessu tímabili. Árni Þór seldi þann hlut eftir að stjórn SPRON ákvað að breyta sjóðnum í hlutafélag sumarið 2008. Árni fékk um 15 milljónir króna fyrir hlutinn, sem varð verðlaus eftir að SPRON féll snemma á árinu 2009.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.