RIch RIcci, forstöðumaður fjárfestingarsviðs breska bankans Barclays, hefur ákveðið að stíga frá. Í umfjöllun um málið á vef dagblaðsins Guardian eru gæsalappir settar utan um ástæðuna, sem er sögð sú að hann ætli að setjast í helgan stein. Ricci er 49 ára, er sagður hafa verið hægri hönd Bob Diamond, fyrrverandi bankastjóra Barclays, og stýrði hann fjárfestingarsviðinu á sama tíma og bankinn stundaði brask með millibankavexti sem leiddu til þess að Diamond var rekinn.

Blaðið segir óvíst hvað Ricci fær greitt  við starfslokin í enda júní. Hins vegar er bent á að hann hafi haft 44 milljónir punda í laun og bónusgreiðslur árið 2010. Það gera 7,9 milljarða íslenskra króna.

Blaðið segir annan starfsmann sem náinn var Diamond sömuleiðis ætla að hætta hjá bankanum á sama tíma. Sá er forstöðumaður eignastýringar Barclays.

Blaðið rifjar upp að Antony Jenkins, sem tók við af Diamond, hafi lýst því yfir að hann ætli að taka til í rekstri Barclays eftir að bankanum var gert að greiða 290 milljónir punda, jafnvirði 50 milljarða króna, í sekt vegna vaxtabrasksins.