Bandaríska kauphöllin Nasdaq lagði í dag fram óvinveitt yfirtökuboð í kauphöllina í London (LSE), en tilboðið hljóðar upp á 367 milljarða króna í 71,25% hlut í kauphöllinni, segir í frétt Financial Times.

Tilboðið stendur til 11. janúar, en heimilt er að framlengja tilboðið til 10. febrúar. Tilboðið hljóðar upp á 12,43 pund á hlut og segir Nasdaq það vera lokaboð. Nasdaq áskilur sér þó þann rétt að hækka tilboðið ef að annað tilboð berst, eða ef stjórnir kauphallana sammælast um verð sem stjórn LSE muni þá leggja fyrir hluthafa.

Samkvæmt skilmálum tilboðsins þarf Nasdaq aðeins að tryggja sér 50% í fyrirtækinu, en í fyrra tilboði setti Nasdaq það sem skilyrði að tryggja sér 90% hlut í LSE til að tilboðið gengi eftir. Þar sem Nasdaq á núþegar 28,75% hlut í LSE, þarf Nasdaq aðeins að tryggja sér rúmlega 21,25% hlut til að samningurinn gangi eftir.

LSE hefur tvívegis hafnað yfirtökuboði frá Nasdaq, síðast 20. nóvember síðastliðinn, en stjórn LSE segir tilboðið of lágt og geri ekki grein fyrir gríðarlegum vexti kauphallarinnar og einstæðri markaðsstöðu.

Talsmenn Nasdaq segja að tilboðið sé sanngjarnt og að velgegni fyrirtækisins hafi þar verið tekin til greina, en Nasdaq gerir einnig grein fyrir aukinni samkeppni sem LSE mun mæta á næstu árum. Mikil samkeppni hefur verið milli fjármálamarkaða á undanförnum mánuðum, en verðstríð um þóknunargjöld hafa orðið til þess að hagnaður hefur dregist saman og orðið til þess að kauphallir íhuga nú samruna í auknu mæli. Í ofanálag hafa stærstu fjárfestingabankar heims tilkynnt að hugsanlega verði stofnaður nýr fjármálamarkaður á næsta ári.

Ef að tilboðið rennur út situr Nasdaq uppi með 28,75% hlut í LSE og er óheimilt að gera annað tilboð innan árs, samkvæmt breskum lögum um yfirtökur.