Nathan & Olsen hefur fengið umboðið fyrir hinum geysivinsæla Häagen-Dazs ís en óhætt er að segja að margir hafi reynt að fá umboðið til sín í gegnum árin með litlum árangri. Ari Fenger, markaðsstjóri Nathan & Olsen, segir ástæðu þess að fyrirtækinu hafi tekist að fá umboðið til sín sé vegna eigendaskipta á fyrirtækinu úti. "Phillsburry átti Haagen Dazs til margra ára. Síðan gerðist það fyrir tveimur árum síðan að General Mills, sem við höfum verið í viðskiptum við til fjölda ára, keypti Phillsburry og þar af leiðandi Häagen-Dazs og þannig fenguð við umboðið."

- En þurftuð þið samt ekki að berjast til að fá merkið til ykkar?

"Alls ekki. Þeir ýttu á okkur að taka inn vöruna og nú er hún komin mörgum til mikillar ánægju," segir Ari en bætir þó við að Emmessís sjái alfarið um dreifingu og markaðssetningu á Häagen-Dazs hér á landi.

Dollan á yfir 700 krónur

Guðlaugur Guðlaugsson, markaðsstjóri Emmessís, segir að byrjað hafi verið að dreifa ísnum fyrir viku og viðbrögðin hafi verið ótrúlega góð. "Innflutningur á Häagen-Dazs er svar við gríðarlegri eftirspurn eftir þessum vinsæla ís hérlendis, ekki síst meðal þeirra fjölmörgu Íslendinga sem hafa bragðað þetta lostæti á ferðum sínum erlendis. "Við ætlum okkur að fara hægt af stað en ísinn er þegar kominn í verslanir Hagkaupa, í Fjarðarkaup og í 10-11 verslanirnar. Þess má þó vænta að hann verði brátt kominn í allar helstu verslanir landsins," segir hann. En ísinn er dýr, heldurðu að Íslendingar séu tilbúnir að borga yfir 700 krónur fyrir dolluna. "Það er alltaf ákveðinn hópur sem er tilbúinn til að borga svo mikið enda ísinn ótrúlega góður," segir hann.

Ætla sér mikla markaðshlutdeild

Guðlaugur vill ekki gefa upp hversu mikið þurfi að seljast til að salan standi undir sér eða hvað áætlanir geri ráð fyrir að seljist mikið. "Við erum með okkar áætlanir um þetta allt saman en ætlum þó að halda þeim tölum út af fyrir okkur." Eins og fyrr segir verður farið hægt af stað. "Við höfum hafið sölu á fimm bragðtegundum en gerum fastlega ráð fyrir að fleiri verði teknar inn á næstu mánuðum. Við ætlum okkur mikla markaðshlutdeild með ísnum en þó er of snemmt að segja til um hver hún verður," segir Guðlaugur en helsti keppinautur Häagen-Dazs er Ben & Jerrys sem ekki alls fyrir löngu var byrjað að flytja inn. Ekki stendur til að opna sérverslun Häagen-Dazs á næstunni en Guðlaugur segir þó að ekkert sé útilokað í þeim efnum. "Við skulum bara bíða og sjá til," segir Guðlaugur. Ísinn er upprunninn í Bandaríkjum á þriðja áratug síðustu aldar og var Häagen-Dazs skráð sem vörumerki í New York árið 1961. Alþjóðleg dreifing hófst á ísnum 1982 og má segja að sigurför hans um heiminn hafi verið óslitin síðan.

Byggt á frétt í Viðskiptablaðinu