Með úrskurði uppkveðnum þann 15. desember 2009, staðfesti héraðsdómur Vesturlands nauðasamninga Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM), er samþykktir voru af kröfuhöfum á fundi þann 20. nóvember 2009.

Úrskurði héraðsdóms var ekki skotið til Hæstaréttar og telst úrskurðurinn því endanlegur og nauðasamningar komnir á.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en með úrskurði héraðsdóms Vesturlands þann 30. september 2009 var SPM veitt heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna sína.

Frumvarp skuldarans að nauðasamningi hlaut samþykki á fundi með atkvæðismönnum um frumvarpið, sem haldinn var 20. nóvember 2009.

Með fyrrnefndum úrskurði héraðsdóms Vesturlands þann 15. desember sl. var orðið við kröfu um staðfestingu nauðasamnings á grundvelli frumvarpsins. Frestur til að skjóta þeim úrskurði til Hæstaréttar er nú á enda án þess að málskot hafi átt sér stað. Er því úrskurðurinn endanlegur og nauðasamningur þannig kominn á samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti.