Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest nauðasamning vegna eignaleigufyrirtækisins Avant. Samningurinn felur í sér að Nýi Landsbankinn, sem er stærsti kröfu- og veðréttarhafi í Avant, taki yfir félagið og eigi 99% hlut á móti 1% hlut félagsins sjálfs.

Þá er gert ráð fyrir að helstu lánadrottnar félagsins fái greitt 5,6% upp í kröfur, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá bráðabirgðastjórn Avant.

Nauðasamningurinn felur í sér að þeir sem eiga kröfu á félagið vegna ólögmætra gengislána fái fullnustu á kröfum sínum með eftirfarandi hætti:

-         Þar sem því verður við komið kemur inneign til lækkunar á höfuðstól eftirstöðva lánssamnings.

-         Séu samningar uppgerðir t.d. þeim hefur verið lokað, en viðskiptavinur á kröfu á Avant hf. t.d. vegna ólögmætra                   samningsákvæða eins og áður sagði:

i.                   Allar kröfur upp að kr. 1.000.000 greiðast að fullu.
ii.                 Upp í kröfur kr. 1.000.001 eða hærri greiðist 5,6% kröfufjárhæðar eða kr. 1.000.000 að vali viðskiptavina.

„Í hnotskurn var staða Avant hf. sú að félagið var ógjaldfært í þeim skilningi að skuldir voru verulega umfram eignir. Ef til slitameðferðar hefði komið er ólíklegt að nokkuð hefði  komið upp í almennar kröfur. Veruleg hætta var á því  að hinn almenni viðskiptavinur félagsins sem átti  kröfur á félagið vegna ofgreiðslu fengi lítið sem ekkert upp í sínar kröfur.

Með atbeina helstu kröfuhafa og þá sérstaklega Landsbankans  hefur náðst nauðasamningur sem m.a. er ætlað að ná til hins almenna viðskiptavinar félagsins. Samkvæmt nauðasamningnum greiðast allar kröfur upp að 1 milljón króna að fullu og með þeim hætti er náð til yfir 90% viðskiptavina félagsins

Nauðasamningurinn gerir ráð fyrir að greiðsla samkvæmt samningum verði innt af hendi eigi síðar en þann 15. mars nk. Unnið er að útreikningum og verða innborganir lagðar inn á sérstakan reikning hjá Landsbankanum á nafni hvers kröfuhafa að undangengnu bréfi þar að lútandi. Hægt verður að fá upplýsingar um greiðslurnar á heimasíðu  Avant hf.“