Til að koma í veg fyrir fjármálakreppur þurfa að vera skýr mörk á milli áhættufjármagns, sem fjárfestar „mega við“ því að tapa og hefðbundinna fjárfestinga.

Þetta kom fram í máli Tamir Agmon, prófessors í fjármálahagfræði frá Ísrael á morgunþingi um efnahagsmál sem haldinn var í Nýja Kaupþingi í morgun.

Í erindi sínu sagði Agmon að oft væru óskýr mörk á milli áhættufjárfestinga og hefðbundinna fjárfesta þó vissulega væri áhætta í öllum fjárfestingum. Hann sagði að starfsfólk í fjármálageiranum gerði sér gjarnan ekki grein fyrir raunverulegu verðmæti eigna heldur miðuðu út frá lánshæfiseinkunnum og markaðsþáttum sem gjarnan væri ekki fótur fyrir.

Agmon fór í stuttu máli yfir bankakrísuna sem gekk yfir Ísrael árið 1983. Hann sagði inngrip stjórnvalda á þeim tíma hafa margborgað sig fyrir ísraelskan almenning. Stjórnvöld hefðu gripið inn í hagkerfið og tekið yfir hóp fyrirtækja sem síðar var þó seldur og skuldir ríkissjóðs þannig minnkaðar verulegar.

Agmon tók þó fram að það hefði verið áætlun stjórnvalda frá upphafi að halda eignum aðeins í stuttan tíma en ekki til langframa. Ætlunin hefði aðeins verið að halda hagkerfinu gangandi í smá stund og losa sig síðan við eignirnar  um leið og tækifæri gafst til.

Hann sagði helstu ástæðuna fyrir eignarhaldi opinberra aðila vera til að mynda lánshæfistraust fyrirtækja. Þegar því markmiði hafi verið náð var strax hugað að sölu eigna.