Sú athygli sem Ísland, og sérstaklega Húsavík, hefur fengið á netmiðlum síðustu tæpu vikuna frá því að nýjasta mynd grínleikarans Will Ferrell, Eurovision Song Contest: The Story Of Fire Saga , var frumsýnd á Netflix jafnast á við auglýsingaherferð fyrir íslenska ferðaþjónustu að andvirði milljarða króna. Titillag myndarinnar ber nafn bæjarins þaðan sem aðalsöguhetjurnar eiga að koma.

Tölur sem almannatengsla- og ráðgjafafyrirtækið Cohn & Wolfe hefur tekið saman fyrir Viðskiptablaðið áætla að verðmæti markaðsherferðar sem ætlað væri að ná sömu dreifingu og umfjöllunin um myndina, mælt út frá umfjöllun um Húsavík, nemi hátt í 2,8 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 382 milljónum íslenskra króna. Er þar miðað við mælda útbreiðslu á tímabilinu 23. júní til 1. júlí.

Andrés Jakob Guðjónsson
Andrés Jakob Guðjónsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Að sögn Andrésar J. Guðjónssonar, ráðgjafa hjá Cohn & Wolfe, jókst dreifing umfjöllunarinnar um myndina um rétt rúmlega 90% bara síðasta sólarhinginn eða svo. Í þessum tölum er svo ekki búið að taka tillit til mælds áhuga á Eurovisionsöngvakeppninni sjálfri, en á sama tímabili má segja að dreifing umfjöllunar um hana, þó hátíðin sjálf hafi verið slegin af þetta árið vegna kórónuveirufaraldursins, sé að andvirði um 32 milljóna Bandaríkjadala.

„Í allri umfjöllun um Eurovision núna kemur Húsavík alltaf upp líka, og er hægt að gefa sér að heildarvirði auglýsingakostnaðar fyrir sams konar umfjöllun nemi um 37,1 milljón dala, sem yrði á gengi dagsins í dag um 5,2 milljarðar íslenskra króna,“ segir Andrés.

„Við þetta bætist svo að hlustun eða svokallað „echo“, eða bergmál, á Twitter fyrir Eurovision á Twitter nær 214 þúsund deilingum. Athyglin sem Húsavík og Ísland er að fá núna jafnast á við túristagos, og miðað við umtalið í netheimum nú þarf landinn allur að leggjast á eitt, almenningur, fyrirtæki og stofnanir og nýta tækifærið fljótt og vel.“

Hugsanlegur lesendafjöldi greina og umfjöllunar á fréttasíðum, bloggum og pistlum tengdum fjölmiðlum sem þannig hafa heyrt um Húsavík og Ísland síðustu daga nemur svo um 1,5 milljörðum. Þar ef er um 41% af umtalinu í Bandaríkjunum en 59% eru í restinni af heiminum, þar af mest í Þýskalandi (8%) og Bretlandi (6%), en einnig á fjarlægari stöðum eins og Brasilíu.

„Grunnurinn er kominn, og nú þurfa fyrirtækin og markaðsstofurnar fyrst og fremst að búa til efni sem tengist myndinni, Húsavík og Eurovision til dreifingar og þar má alveg endurnýta gamalt efni. Í textanum þarf að nýta sér leitarvélabestun þar sem notuð eru algeng orð í umræðunni eins og Will Ferrell, Húsavík, Eurovision Song Contest og annað og tengja með myllumerkjum. Sama er hægt að gera með Instagram, þar sem notaðar væru góðar litríkar myndir til dæmis af Húsavík og svo þurfa Íslendingar að vera duglegir að dreifa þessu og tengja við það sem ferðaþjónustufyrirtækin hér hafa upp á að bjóða.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Sinnuleysi lögmanns kennt um í stefnu til bótagreiðslna vegna deilna um leigu á húsnæði
  • Vikulegar siglingar milli Íslands og Grænlands opna á nýjan markað fyrir fjölda íslenskra fyrirtækja
  • Stefán Sveinn Gunnarsson markaðsstjóri Knattspyrnusambands Íslands ræðir um nýtt merki og ný tækifæri
  • Staðan á fasteignamarkaði í kjölfar mikilla vaxtalækkana tekin ítarlega fyrir
  • Fariđ er yfir gagnrýni á útbođ ferđaþjónustu fatlađra
  • Nýtt markaðstorg fyrir ýmis konar tækjaleigu á að virka líkt og Airbnb fyrir gistingu
  • Rætt er við Rósu Kristinsdóttur sem hóf nýlega störf sem lögfræðingur hjá Akta sjóðum
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, segir af afleiðingum aukinnar framleiðni á Alþingi
  • Óðinn skrifar um hækkun erfðafjárskatts og misskilnings samgönguráðherra