Bandaríska stórblaðið New York Times fjallaði um skýrslu Íslandsbanka um bandaríska jarðhitamarkaðinn í gær.

Stórblaðið hefur það eftir Alex Richter, forstöðumanni á orkusviði Íslandsbanka, að hærra verð geti fengist fyrir orku frá jarðvarmavirkjunum heldur en öðrum endurnýtanlegum orkugjöfum, eins og vind- og sólarorkuvera, því rafmagnsframleiðsla jarðvarmavirkjananna sé stöðugri.

Í frétt um þetta á heimasíðu Íslandsbanka kemur fram að líkur eru á að hærra verð fáist fyrir rafmagn frá jarðvarmarvirkjunum en öðrum raforkuverum í Bandaríkjunum á næstu árum. Sérfræðingar Íslandsbanka telja mikla möguleika felast í nýtingu jarðvarma í vestan hafs. Jarðvarmavirkjanir framleiða innan við 1% af orkuþörf Bandaríkjanna en ekkert land framleiðir samt meira af rafmagni þannig. Obama-stjórnin hefur gert þróun endurnýtanlegra orkugjafa að forgangsmáli og styður við það á ýmsan hátt. Tæplega þrjátíu fylki hafa sett lög um að ákveðið lágmarkshlutfall þeirrar orku sem notuð er verði að koma frá endurnýtanlegum orkugjöfum.

Tvöföldun á jarðvarmaorku

Þegar eru uppi áætlanir um að auka framleiðsluna um 6.400 MW en hún er 3.100 MW í dag. Kostnaður við þetta er talinn nema um 26 milljörðum dollara. Í nýlegri skýrslu Íslandsbanka, um jarðvarmamarkaðinn í Bandaríkjunum, kemur fram að með núverandi tækni sé hægt að framleiða 40.000 MW af orku í viðbót úr jarðvarma og 517.800 MW í viðbót með betri tækni. Þar felist ýmis tækifæri fyrir fjárfesta.

Í skýrslunni kemur fram að með auknum stuðningi stjórnvalda sýni stórfyrirtæki, til dæmis úr olíugeiranum, aukinn áhuga á jarðvarmavirkjunum. Þar eru einnig talin tækifæri fyrir samstarf milli fjárfesta en minni fjárfestar eiga erfitt uppdráttar. Stofnkostnaður, einkum við borun, gerðir þeim erfiðast fyrir.