Mikil óvissa er um hversu miklum endurheimtum salan á FIH bankanum muni skila Seðlabanka Íslands vegna 500 milljóna evra láns, um 81 milljarðs króna, sem bankinn veitti Kaupþingi tveimur dögum áður en hann féll í október 2008. FIH var settur að veði fyrir láninu. Við sölu á bankanum í september í fyrra fengust rúmlega 40 milljarðar króna staðgreiddir en afgangsgreiðsla var bundin við rekstrargengi FIH og gengi hlutabréfa í skartgripaframleiðandanum Pandoru. Í lok síðasta árs voru tugir milljarða króna afskrifaðir hjá FIH og gengi Pandoru hefur hríðfallið að undanförnu.

Tæpur helmingur staðgreiddur

Þegar Seðlabankinn tilkynnti um söluna á FIH í september í fyrra var söluverðið sagt 5 milljarðar danskra króna, 108,5 milljarðar króna. Nýir eigendur FIH, dönsku lífeyrissjóðirnir ATP og PFA, sænska tryggingafélagið Folksam og fjárfestirinn Christian Dyvig, staðgreiddu einungis 41,2 milljarða króna. Sú upphæð er um helmingur þess sem Kaupþing fékk lánað hjá Seðlabankanum tveimur dögum áður en bankinn féll.

Til viðbótar staðgreiðslunni veitti Seðlabanki Íslands kaupendahópnum seljendalán upp á 67,3 milljarða króna. Það lán er með gjalddaga 31. desember 2014. Höfuðstóll lánsins er bundinn við danska neysluvísitölu og það ber ekki vexti. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að höfuðstóll lánsins muni því lækka sem nemur raunverulegu tapi FIH fram að gjalddaga lánsins. Dæmi um hluti sem gætu valdið slíku er endanleg afskrift lána.

Á móti var gert samkomulag um að höfuðstóll lánsins myndi hækka í takti við sölu eigna sem eru í fjárfestingarsjóðnum Axcel III, sem er í eigu FIH. Sjóðurinn á hluti í nokkrum mismunandi fyrirtækjum en þar munar langmest um 57,4% eignarhlut í skartgripafyrirtækinu Pandoru. Í kaupsamningnum var gert ráð fyrir að hagnaður FIH af Axcel III gæti verið á bilinu 15,2-32,6 milljarðar króna. Til að það verð sem Seðlabankinn gaf upp við söluna á FIH gangi upp þarf hagnaður FIH vegna sjóðsins að verða um 26 milljarðar króna, eða mjög nálægt efri mörkunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.