Sala á dagvörur á föstu verðlagi í smásölu var 6,9% meira í júlí sl. en í sama mánuði árið 2003 samkvæmt nýrri smásöluvísitölu SVÞ-IMG. Áfengissmásalan á föstu verðlagi jókst um heil 17% og sala lyfjaverslana um 6,2% miðað við júlí í fyrra. Verð dagvara hækkaði um 2% í mánuðnum skv. Hagstofu Íslands, áfengisverð var nánast óbreytt og lyfjaverð hækkaði um 1,7% á milli ára. Að sögn verslunarfólks hefur góða veðrir áhrif á innkaup neytenda sem speglast í smásöluvísitölunni.

Hækkun á meðalgildi síðustu 3.mánaða á föstu verðlagi samanborið við sama tímabil fyrir ári var frá fjórum til tæplega átta prósent eftir verslunargreinum.

Smásöluvísitala SVÞ-IMG er reiknuð af IMG samkvæmt upplýsingum sem berast beint frá fyrirtækjunum og ÁTVR. Miðað er við að a.m.k. 80% af veltu í greininni skili sér með þessum hætti. Venjulega er þetta hlutfall þó nokkuð hærra.

Smásöluvelta ÁTVR í áfengi er leiðrétt með viðkomandi verðvísitölu úr neysluverðs-vísitölu Hagstofunnar og lyf sömuleiðis með viðkomandi verðvísitölu fyrir lyf og lækningavörur.

"Það er ljóst að töluverð aukning hefur orðið í dagvöruversluninni. Þetta á ekki síst við um verslun á landsbyggðinni, þar sem ferðamannastraumurinn hefur verið mikill. Góða veðrið hefur mikið að segja og áhugavert að sjá að þá virðist fólk veita sér dýrari mat, t.d. grillmat. Nú verður spennandi að sjá hvernig ágúst kemur út eftir góðviðriskaflann," sagði Brynjar Steinarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samkaupa hf.