Neytendastofa hefur sektað þrjú fyrirtæki í kjölfar eftirlits með verðmerkingum í bakaríum á höfuðborgarsvæðinu, er fram kemur á vef stofunnar .

Meðal annars fólst eftirlit Neytendastofu í að skoða ástand verðmerkinga í umtalsverðum fjölda bakaría, fyrst í febrúar og síðan í apríl. Kemur fram að í seinni eftirlitsferðinni hafi ástand verðmerkinga tekið umtalsverðum framförum.

Þó voru nokkur bakarí sem ekki sinntu tilmælum Neytendastofu með fullnægjandi hætti og lagði stofan því stjórnvaldssektir á fyrirtækin.

Um er að ræða Sveinsbakarí, Fjarðarbakarí og þrjár verslanir Bakarameistarans.

Bakarameistarinn baðst undan sekt og benti á að einungis 5 prósent verðmerkinga hefði vantað, en þrátt fyrir það sektaði Neytendastofa fyrirtækið um 150.000 krónur.

Hvorki Fjarðarbakarí né Sveinsbakarí sendu athugasemdir til Neytendastofu, en fyrrnefnt bakarí þarf að greiða 50.000 krónur í sekt og það síðarnefnda 75.000 krónur.