Trú neytenda á bæði íslensku hagkerfi og atvinnulífi hefur snarminnkað og eru þeir nú mun svartsýnni um framvindu efnahagsmála en fyrir mánuði síðan, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Greinilegt er að mikil neikvæð umfjöllun undanfarið um íslenskt efnahagslíf hérlendis sem erlendis hefur mikil áhrif á mat og væntingar neytenda.

Væntingavísitala Gallup var birt í morgun og mælist hún nú 103,3 stig. Það er lækkun um 24,4 stig frá fyrri mánuði, það er mesta lækkun sem mælst hefur síðan byrjað var að reikna vísitöluna í mars 2001, að sögn greiningardeildar.

Væntingavísitalan hefur ekki mælst lægri síðan í janúar 2003. Undirvísitala væntinga til sex mánaða mælist nú 85, en vísitölugildi undir 100 merkir að þeir sem telja að ástandið verði verra að hálfu ári liðnu eru fleiri en þeir sem telja að það verði betra.

Væntingavísitalan hefur reynst haldgóð vísbending um þróun einkaneyslu, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Af lækkun vísitölunnar nú má ráða að sá mikli vöxtur sem verið hefur í einkaneyslu að undanförnu sé á enda og að framundan sé a.m.k. skammvinnt skeið samdráttar í neyslu landsmanna