Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, segir það skipta apótek miklu máli á tímum sem þessum að fylgjast vel með tilmælum og leiðbeiningum sem beint sé til fólks um hvernig skuli bera sig að.

„Þegar það koma tilmæli eins og að passa vel upp á handþvott og sprittun þurfum við að bregðast fljótt og vel við og tryggja að við séum með vörur og þjónustu hverju sinni sem miða að því að hjálpa landsmönnum að fylgja þeim tilmælum.“

Hálfs árs birgðir farið á mánuði
Þetta hefur gengið vel hingað til að hennar sögn, og enginn skortur er á handspritti þrátt fyrir að eftirspurn hafi aukist gríðarlega síðustu daga og vikur. „Vissulega koma dagar þar sem birgðir klárast í tilteknum verslunum á tilteknum tímum, en við skilgreindum fljótlega mikilvægustu vörurnar og höfum verið að vakta birgðastöðuna á þeim.

Það hefur verið heilmikið púsl að tryggja framboð á góðu handspritti, enda gríðarleg söluaukning hjá okkur. Hálfs árs birgðir hafa verið að fara á um það bil mánuði, og það hafa komið tímabil þar sem við höfum verið að beina því vinsamlega til fólks að taka bara einn brúsa á mann.

Við þurfum að hafa í huga að þetta á ekki bara við um Ísland heldur er verið að grípa til sömu ráðstafana og veita sömu leiðbeiningar víða um heim – og þá er að ýmsu að huga. Sem dæmi er skortur á heimsvísu á litlu plastpumpunum sem dæla sprittinu og við erum því að beina því til okkar viðskiptavina að henda ekki pumpunum heldur endurnýta þær,“ segir hún og bendir á að auk handsprittsins bjóði Lyfja meðal annars upp á sótthreinsiklúta.

„Við eigum von á sendingu í þessari viku frá framleiðanda Antibac sem ætti að duga okkur í langan tíma, og við fáum meira ef á þarf að halda. Við erum öll almannavarnir og þurfum að hafa það í huga, aðrir þurfa líka að hafa aðgang að handspritti, sótthreinsiklútum, handáburði og verkjalyfjum.“

Nánar er rætt við Sigríði í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .