Finnski farsímaframleiðandinn Nokia hefur keypt hlut þýska fyrirtækisins Siemens í sameiginlegu samstarfi þeirra, Nokia Siemens Networks. Kaupverðið nemur 1,7 milljörðum evra, jafnvirði rúmra 270 milljarða íslenskra króna. Nokia og Siemens reyndu að selja reksturinn fyrir tveimur árum en það gekk ekki eftir. Breska dagblaðið Financial Times segir verðið í lægri kantinum. Það sýni líklega að Siemens hafi viljað losa sig við félagið í skugga óvissu á fjarskiptamarkaði..

Financial Times bendir sömuleiðis á að þótt viðskiptin séu hagstæð fyrir Nokia þá veki þau upp spurningar um fjárhagslega burði fyrirtækisins. Blaðið bendir á að hratt gangi á sjóði Nokia. Fyrirtækið átti 4,5 milljarða í lok fyrsta ársfjórðungs. Í lok júní var það komið niður í á blinu 3,7 til 4,2 milljarða evra. Fjárhæðin gæti verið lægri, að mati Financial Times, jafnvel allt að 2-2,5 milljarðar ef samningur um viðskiptin var innsiglaður á öðrum ársfjórðungi.