Félagið Nordic Sea ehf. hefur fest kaup á Fiskbúð Hafliða og Gallerý Kjöti. Félagið hefur undanfarið ár unnið að því að setja á stofn keðju fiskbúða á höfuðborgarsvæðinu undir nafninu Fiskisaga. Í dag rekur félagið sex búðir og sex til átta nýjar búðir eru í burðarliðnum, að sögn Gísla Reynissonar, fjárfestis og stjórnarmanns í Nordic Sea. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.

Nordic Sea keypti fyrr á árinu fiskvinnslu G. Óskarssonar á Granda og hefur verið að þjóna veitingahúsum, matstofum, stærri eldhúsum og fagaðilum. "Við viljum styrkja Fiskisögu sem framleiðanda sælkeramatar og til þess festum við kaup á Gallerý Kjöti og hyggjumst styrkja þá verslun samhliða Fiskisögu. Auk þess keyptum við Fiskbúð Hafliða til þess að styrkja vinnslu okkar og sölu til fagaðila."

Að sögn Gísla verður Gallerý Kjöt rekið sem systurfyrirtæki en í stærri verslunum verður Gallerý Kjöt, Fiskisaga ásamt veitingastöðum saman en síðan verða sjálfstæðar Fiskisögubúðir og sjálfstæðar Gallerý Kjöt verslanir. Mikil áhersla verður á sölu á hráefni til fagaðila.

Ein verslun er rekin á vegum Gallerý Kjöts í dag en að sögn Gísla er það verslun sem þeir töldu áhugaverða, á efri gæðaenda í kjötinu eins og hann orðaði það. "Við ætlum að styrkja þetta. Mikið af okkar matarhefð kemur frá Dönunum og þeir kaupa allt sitt góða kjöt hjá slátraranum og það hefur vantað hér á landi, að okkar mati, svona sérhæfðar gæðabúðir með kjöt. Við töldum vera þarna smá gat á markaðinum."

Undanfarið ár hefur verið unnið að endurhönnun á búðum Fiskisögu og fyrir skömmu opnaði fyrsta nýja búðin Hamraborg í Kópavogi. Þar er lögð áhersla á nýja rétti og nýja valmöguleika í fiskmeti.

Fiskbúðirnar eru reknar í nafni Nordic Sea ehf. sem er dótturfélag Nordic Partners ehf. Fiskvinnslan er rekin í félagi sem heitir Sjófiskur. Fiskisaga er undir félagi sem heitir Hafrún. Hafrún og Sjófiskur eru síðan dótturfélög Nordic Sea sem nú hefur eignast Gallerý Kjöt sem er þá þriðja dótturfélagið. Óskar Garðarsson er framkvæmdastjóri Fiskisögu og Kristján Stefánsson er framkvæmdastjóri Sjófisks.