Ríkissjóður Íslands og Seðlabanki Íslands endurgreiða fyrirfram í dag lán frá Norðurlöndunum sem tekin voru í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda í kjölfar hrunsins 2008. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Seðlabankans. Um er að ræða endurgreiðslu að fjárhæð 735 milljónir evra, jafnvirði um 114 ma. kr., sem upphaflega voru á gjalddaga á árunum 2019, 2020 og 2021. Er því að fullu búið að endurgreiða lán frá Norðurlöndunum sem samtals námu 1.775 milljónum evra.

Endurgreiðslan kemur í kjölfar þess að íslenska ríkið ákvað að gefa út skuldabréf á Evrópumarkaði að fjárhæð 750 milljónir evra, eða jafnvirði 116 ma. kr. Í tilkynningunni segir að útgáfan hafi veitt svigrúm til að endurgreiða Norðurlandalánin, sem bera óhagstæðari vexti.