Aðstoðarforstjóri norska neytendaráðsins segir að verstu dæmin um slæma útreið almennra sparifjáreigenda í Noregi í viðskiptum við ráðgjafarfyrirtæki á fjármálasviðinu séu að finna hjá Glitnir Privatökonomi, dótturfyrirtæki Glitni Bank í Noregi.

Í fyrradag var haldinn í skiptarétti í Björvin í Noregi fyrsti skiptafundur eftir gjaldþrot Kapitalhuset as, sem tók við af Glitni Privatökonomi, en síðarnefnda félagið var svipt leyfi til fjárfestingarráðgjafar á síðasta ári af norska fjármálaeftirlitinu og tók Kapitalhuset við starfseminni.

Á norska viðskiptavefnum E24 segir að örvæntingarfullir sparifjáreigendur leiti í hrönnum til neytendaráðsins og erindin hafi verið svo alvarleg að starfsmönnum ráðsins hafi verið gefnar sérstaklegar neyðarleiðbeiningar til að fara eftir í samtölum sínum við þá sem þangað leita ráða.

Dæmi séu um að sparifjáreigendur sitji uppi með 40.000-60.000 norskra króna (allt að einni milljón íslenskra króna) vaxtagjöld á mánuði eftir að hafa tekið lán til að fjárfesta samkvæmt ráðleggingum Glitir Privatökonomi. Þá séu dæmi um sparifjáreigendur sem séu nú með allt að 6 milljóna norskra króna skuld, jafnvirði 100 milljóna íslenskra króna, af sömu ástæðu.

Jorge B Jensen aðstoðarforstjóri norska neytendaráðsins segir í samtali við E24 að fjárhagsleg framtíð margra hafi verið lögð í rúst. Engir fjárfestar með þekkingu á fjármálum hefðu farið að ráðleggingum Glitnir Privatökonomi.

Hins vegar er haft eftir Nils-Arne Lie fyrrum stjórnarmanni í Glitnir Privatökonomi að viðskiptavinir félagsins hafi fengið nægar upplýsingar um þá fjárfestingarkosti sem þeim stóðu til boða.