Norska sendiráðinu í höfuðborg Afganistan, Kabúl, hefur verið lokað vegna ítrekaðra hótana frá hryðjuverkamönnum, að því er kemur fram í norskum fjölmiðlum. Norska sendiráðið sendi öllum Norðmönnum búsettum í Afganistan tölvupóst fyrr í dag þar sem tilkynnt var um lokun vegna hótana um hryðjuverk.

„Við erum meðvituð um þá ógn sem hefur verið fyrir hendi, og höfum gripið til ákveðinna aðgerða vegna þessa," sagði Kristin Melsom, talsmaður norska utanríkisráðuneytisins. „Til að gæta öryggis starfsmanna okkar í Kabúl get ég ekki upplýst um hvaða aðgerða hefur verið gripið til vegna þessa," sagði Melsom í samtali við fjölmiðla.