Alþjóðasamfélagið hefur brugðist illa við yfirlýsingum Norður-Kóreu um að þjóðin hafi sprengt kjarnorkusprengju í tilraunaskyni og hefur fjöldi þjóða hótað ströngum refsiaðgerðum vegna tilraunanna, segir í frétt Dow Jones.

Tony Snow, talsmaður Hvíta hússins, segir að enn eigi eftir að staðfesta að tilraunirnar hafi heppnast. Snow segir að það geta tekið nokkurn tíma að skera úr um það og að sá möguleiki sé fyrir hendi að ekki verði hægt að skera úr um hvort sprengingarnar í Hwaderi á mánudag hafi verið kjarnorkutilraun sem heppnaðist. Hann segir þó að litið sé á yfirlýsingu Norður-Kóreu um að tilraunin hafi farið fram alvarlegum augum.

Ástralar segja að þeir muni grípa til strangra refsiðagerða gegn Norður-Kóreu, sem meðal annars skerði réttindi þegna landsins til að ferðast til Ástralíu og að Ástralar muni styðja allar þær aðgerðir sem Sameinuðu þjóðirnar muni grípa til. Japanar segja að strangari efnahagslegum refsiaðgerðum verði beitt gegn nágrönnum sínum. Suður-Kórea hefur fordæmt tilraunirnar, en segir að það muni taka nokkrar vikur að skera úr um hvort þær hafi heppnast.

Örfáum klukkustundum eftir tilraunirnar fordæmdi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tilraunirnar og hvatti Norður-Kóreu til að láta af stefnu sinni og setjast aftur að samningaborðinu, en Norður-Kórea hefur hafnað því fram að þessu. George W. Bush Bandaríkjaforseti segir tilraunirnar ögrandi og óásættanlegar og krefst tafarlausra aðgerða öryggisráðsins. Snow segir að innan öryggisráðsins séu allir séu sammála um að Norður-Kórea verði beitt refsiaðgerðum, en að eftir eigi að ákveða hvers eðlis þær verði.

Snow hafnaði öllum hugmyndum um að fulltrúar Bandaríkjanna færu út í beinar viðræður við Norður-Kóreu og segir að viðræðurnar verði áfram í sama formi og hefur verið, þar sem þjóðir eins og Kína og Suður-Kórea hafi meira vægi í samningum heldur en Bandaríkin.