Erlendir ferðamenn voru 201.871 fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs á móti 172.140 á sama tíma í fyrra. Aukningin nam tæpum 30 þúsund ferðamönnum eða 17,3%. Mest var fjölgunin meðal Norðurlandabúa. Þannig fjölgaði Dönum um 5.365 (37,5%), Norðmönnum um 2.668 (19,3%), Svíum um 2.485 (18,2%) og Finnum um 643 (16,3%). Sömuleiðis er góð aukning frá öðrum lykil markaðssvæðum. Frá Norður-Ameríku var rúm 11% fjölgun, 10,6% frá Bretlandi og tæp 10% frá Þýskalandi. Þá má einnig nefna að umferð Japana hefur aukist verulega.

Niðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs á erlendum ferðamönnum sem fara um Leifsstöð sýna að mikill vöxtur er í komum erlendra ferðamanna til Íslands. Frá áramótum til júlíloka komu á þriðja hundrað þúsund erlendir ferðamenn til landsins eins og áður sagði, ríflega 17% fleiri en á sama tíma í fyrra. Aukning er frá öllum aðal markaðssvæðum Íslands.