Í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag við Jón Helga Guðmundsson, stjórnarformann Norvik Banka í Lettlandi, kemur fram að festar undirliggjandi eignir fjárfestingafélagsins Straumborgar séu í ásættanlegu standi í dag. Miklu munar að Norvik Banka í Lettlandi hefur náð að komast í gegnum verstu kreppuna og var rekinn með hagnaði á síðasta ári. "Við reiknum með að árið 2010 verði erfitt en svo má búast við að fari að birta til aftur. Við teljum okkur vera komin vel í gegnum skaflinn þar og aðrar undirliggjandi eignir eru bara nokkuð góðar."

Starfsemi Norvik Banka er að langmestu leyti í Lettlandi en bankinn rekur einnig starfsemi í nokkrum öðrum löndum. Þar skipti miklu máli að bankinn hafði náð að greiða upp öll sambankalán sín og þá heildsölufjármögnun sem hann var með, meðal annars frá Kaupþingi. Það var Standard Bank sem leiddi síðasta sambankalán Norvik Banka.

Norvik Banka er viðskiptabanki sem byggir á innlánum og eru innlánin töluvert mikið hærri en útlánin segir Jón Helgi í viðtalinu. "Við erum með lipra lausafjárstöðu til að mæta þeim áföllum sem geta alltaf verið á næsta leiti." Innlánin jukust á síðasta ári um tæp 12%, meðal annars vegna þess að Lettar voru að færa sig á milli banka. Sænskir bankar, með SEB og Swedbank, hafa verið fyrirferðamestir í Lettlandi. Þeir hafa verið að tapa umtalsverðum fjármunum og óttuðust margir að það gæti riðið þeim að fullu. Jón Helgi sagðist halda að þeir væru komnir fyrir vind núna en sænsku bankarnir voru mikið í langtímalánum, bæði til einstaklinga og fyrirtæka. Nokkuð sem Norvik Banka var minna í. Bankinn hefur eigi að síður orðið að leysa til sín talsvert af eignum eins og flestir bankar í heiminum.

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Jón Helga í dag.